Algengar spurningar

Á Íslandi er vindorka lítið þekkt og eru þess vegna mörgum spurningum sem þarf að svara. Við viljum hafa upplýsingar aðgengilegar fyrir þá sem vilja og þess vegna höfum við tekið saman nokkrar algengar spurningar um vindorku. Það er af mörgu að taka svo þessi listi er því ekki tæmandi. Ef þú hefur fleiri spurningar eða vangaveltur þá ekki hika við að vera í sambandi við okkur.

Vindorka er endurnýjanleg raforka sem búin er til með vindtúrbínum, oftast nefndar vindmyllur í daglegu tali.

Vindtúrbínur samanstanda af turni, vélarhúsi og vindtúrbínuspöðum. Vélarhúsið er efst á turninum og við það tengjast vindtúrbínuspaðarnir. Vindurinn snýr spöðum vindtúrbínunnar sem knýja rafal vélarhússins. Rafallinn og annar búnaður innan vélarhússins umbreytir hreyfiorku vindsins í raforku sem er síðan flutt til notenda með flutningskerfi og dreifiveitu.

Vindtúrbínur sem staðsettar eru á sama svæði mynda saman vindorkuver. Raforkan sem framleidd er af vindtúrbínum flyst með jarðstrengjum frá hverri túrbínu að safnstöð. Þaðan er raforkan flutt áfram með jarðstrengjum og/eða loftlínum inn á flutningskerfi Landsnets.

Eftirspurn eftir raforku sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum er sífellt að aukast. Vindorka er orðin hagkvæmari orkukostur en áður fyrr vegna gríðarlega tækniframfara vindtúrbína síðustu þrjá áratugi og er vindorka orðin samkeppnishæf við aðra endurnýjanlega orkugjafa. Íslenskt veðurfar er einnig talið afar hagstætt til framleiðslu á vindorku og er hún talin henta vel með vatnsafli sem er uppistaða íslenska raforkukerfisins.

Hver vindtúrbína hefur steypta undirstöðu sem er allt að 30m í þvermál og er að mestu staðsett neðanjarðar. Efsti hluti undirstöðu er sjáanlegur ásamt turni, vélarhúsi og vindtúrbínuspöðum. Vegur þarf að liggja að hverri vindtúrbínu og eru vegirnir oft tengdir milli margra vindtúrbína. Umhverfisáhrif vindorkuvera eru háð staðsetningu en áhrif vindorkuvers á jarðveg, lífríki, hljóðvist, ásýnd og fleira eru rannsökuð ítarlega í umhverfismati og mikilvægt að endanleg hönnun vindorkuvers taki mið af niðurstöðum þess.

Algengt viðmið fyrir líftíma vindorkuvera eru 25 ár. Að loknum líftíma eru vindtúrbínur annaðhvort endurnýjaðar eða teknar niður og skilið er við landsvæði sem næst fyrra horfi.

Almennt framleiða vindtúrbínur raforku ef vindur er á bilinu 3 m/s til 25 m/s. Ef vindhraði er lægri en 3 m/s er ekki nægilegt afl til að snúa vindtúrbínuspöðum og framleiða raforku. Ef vindur er yfir 25 m/s er hætta á skemmdum á vélbúnaði og því er blöðum vindtúrbínuspaða snúið frá vind og framleiðsla stöðvuð í slíkum aðstæðum.

Turn og undirstaða vindtúrbína er búinn til úr stáli og steypu. Vindtúrbínuspaðar eru að mestu úr glertrefjaefnum og eru málaðir, ásamt turni, í hvítum eða ljósgráum lit. Stór hluti efna sem notuð eru í vindtúrbínur er hægt að endurvinna, að undanskildum glertrefjum sem notaðar eru í vindtúrbínuspaða en mikil þróunarvinna er að eiga sér stað á heimsvísu í endurvinnslu á vindtúrbínuspöðum.